Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ótrúleg tilfinning

Dagurinn í gær fer í bækurnar sem einn af þessum stóru dögum í knattspyrnusögu okkar. Reyndar töpuðum við leiknum en það kom sem betur fer ekki að sök því að úrslitin í hinum leikjunum voru okkur hliðholl. Að lyfta bikar fyrir klúbbinn okkar er tilfinning sem ekki er hægt að lýsa og hvað þá að koma með hann heim og fá þessar móttökur. Við erum orðlausir yfir þessu og við þökkum ykkur sem komuð út í grenjandi rigningu og tókuð þátt í þessu sem og ykkur sem stóðuð fyrir þessu. Nú er ég farinn á lokahófið og vonast ég til að hitta ykkur öll þar

Óli Stefán 


Veðrið

Mér sýnist á öllu að við séum bara heppnir að enda fyrir austan því þar verður þetta líka fína veður. Við erum að tala um sunnan 5-6 m/s og alskýað. Hiti verður á bilinu 8-10 gráður. Besta veðrið verður sjálfsagt fyrir norðan en það vesta auðvitað í Eyjum en Fjölnismennirnir verða sjálfsagt að fara í dag með Herjólfi því það má ekki fresta síðastu tveimur umferðunum. 

Af okkur er það annars að frétta að menn eru flestir heilir en nokkrir tæpir samt. Gömlu mennirnir, við Eysteinn, erum að tjasla okkur saman enda báðir mjög spenntir að spila fyrir austan og það þarf meira en einhvern hálsríg til að stoppa okkur í að spila.

Við eigum hádegisflug á morgun þannig að við verðum lentir í faðmi fjölskyldu Eysteins um eitt. Þangað liggur leið okkar á veitingastað sem að systir hans á í te og rist (spurning hvort að við stelumst ekki í kleinur líka) Frá Egilsstöðum er um 50 min keyrsla inná Norfjörð þar sem leikurinn byrjar svo 17.30

Óli Stefán  


Æfingin á morgun.

Það verður æft í Reykjavíkurborg á morgun, nánar tiltekið á ÍR vellinum. Æfingin byrjar kl 17.00 stundvíslega. Ástæða þess að við æfum þarna er að gervigrasið þar er mjög svipað því sem við komum til með að spila á fyrir austan. 

Gervigrasið í Neskaupstað

 

 

 

 

 

 

Gervigrasið í Neskaupstað

 

 Óli Stefán 


Þá er það ákveðið

að leikurinn á föstudag verður á Norfirði kl 17.15. Ástæðan er ekki sú að völlurinn á Eskifirði sé ónýtur heldur er heljarinnar veisla á Norfirði og verið að vígja rennubraut við sundlaugina hjá þeim. Það er frítt á völlinn þannig ef það var miðaverðið sem var að koma í veg fyrir að þið kæmuð á leikinn þá er það vandamál úr sögunni og ekkert því til fyrirstöðu að mæta. 

U23 ára liðið var að spila í kvöld við Hauka. Liðið var eins og í síðustu leikjum blandað eldri og yngri leikmönnum og fór leikurinn 5-0 fyrir Grindavík. Undra Steinn var með þrennu og hefur hann skorað 6 mörk í þremur leikjum í þessari keppni. Ray og Alex settu síðan sitt markið hvort. 

 Ivanarnir tveir ná ekki að klára mótið með okkur þvi þeir þurfa að fara í fyrramálið. Ég er ekki alveg klár á því af hverju en held samt að það tengist atvinnuleyfinu hjá þeim. Við þökkuð þeim félögum fyrir þeirra framtak í sumar. Marinko klárar hins vegar leikinn og lokahófið og fer síðan heim á mánudag.

Óli Stefán 


Bikarinn heim

Nú þegar maður er aðeins búinn að jafna sig eftir gleði helgarinnar þá er maður farinn að spá aðeins í lokaleik deildarinnar á föstudag. Við spilum við Fjarðabyggð og vinnum við þann leik erum við 1.deildarmeistarar. Það er alveg á hreinu að þó að við séum komnir upp þá erum við ekki saddir fyrr en við erum búnir að vinna deildina og sættum við okkur ekki við neitt annað. Ekki er ennþá vitað hvar leikurinn verður spilaður en það eru 3 möguleikar í stöðunni. Nr 1 er að spila á grasinu á Eskifirði þar sem þeir spila venjulega en völlurinn er eitthvað slæmur held ég. Nr 2 er að leikurinn verði á gervigrasvellinum í Neskaupstað og nr 3 er að spila í höllinni á Reyðarfirði. Ég væri alveg til í að spila í Neskaupstað en þar spilaði ég í eitt ár þegar ég var yngri og hef aldrei spilað þar síðan þannig að það væri sérstakt fyrir mig. 

Óli Stefán 


Komnir upp

Það var nátturlega bara gaman í gær þegar úrvalsdeildarsætið var tryggt. Menn voru alveg einbeittir allan tímann, nema hugsanlega þegar ónefndur maður tók víti sem klikkaði all svakalega. Þessi árangur er ekki bara okkur leikmönnum að þakka heldur öllum þeim sem að þessu koma ásamt áhorfendur sem voru frábærir í gær. Nú er bara að tryggja efsta sætið og klára sumarið með stæl. Eftir vikuna fara leikmenn og stjórn í kærkomið frí til Tenerife en stjórnin hét okkur þessari ferð fyrir sæti í efstu deild og sýnir þetta bara þann metnað vilja sem stjórn Grindavíkur býr yfir. 

Óli Stefán 


Ég mæli með..

að þið komið vel klædd á leikinn á morgun. Við getum þakkað arkitektum stúkunnar fyrir það að það verður skjól fyrir áhorfendur í austan áttinni. Hann er að spá vaxandi austan með rigningu þannig að vindurinn kemur í bak stúkunnar og svo er þetta líka fína þak yfir stúkunni þannig að ekki ætti að rigna á ykkur annað en okkur leikmenn. Hitinn verður um 7 gráður (ætli það sé tilviljun að það verði akkurat SJÖ stiga hiti???) þannig að það er um að gera að mæta bara í kraftgallanum í gulu utan yfir og taka kaffibrúsa með sem yljar ykkur ásamt snilldar spilamennska beggja liða.

Óli Stormur 


Leikstíll

Þeir sem þekkja Jankó og hafa æft undir hans stjórn vita nákvæmlega hvernig bolta hann vill spila. Frá því við byrjuðum að æfa 15.nóv í fyrra þá höfum við verið að æfa stuttar sendingar og að halda bolta innan liðs. Það tekur tíma og mikla þolinmæði að ná upp svona leikstíl og oftar en ekki kemur þetta niður á úrslitum leikja. Nú held ég að þessi vinna sé loks að skila því sem maður hefur verið að bíða eftir. Við höfum oft á tíðum spilað vel í 45-60 min og dottið svo niður. Við náðum að skila þessum bolta í nánast 90 min í síðasta leik og spiluðum reyndar mjög vel á móti Breiðablik í síðustu viku líka. Þegar Jankó tók við 1999 tók alveg eitt ár að ná þessu, eftir það vorum í toppbaráttu í 3 ár. Vonandi er þetta komið til að vera og ekkert annað en toppbarátta næsta sumar í efstu deild. 

Til þess að við eigum að gera einhverjar vonir um gott sumar í efstu deild næsta sumar þá verðum við að klára leikinn á morgun við granna okkar úr Sandgerði. Góðir íþróttamenn kunna að bera virðingu fyrir andstæðingunum og fyrir því sem þeir eru að gera og það gerum við svo sannarlega. Reynir er að byggja upp fyrstudeildarlið og það á mörgum heimamönnum sem er frábært og vonandi tekst þeim það. Við höfum farið í gegnum flest lið i deildinni án þess að vanmeta neitt þeirra og það sama verður uppá teningnum á morgun. 

Við leikmenn hittum á góðan dag á móti Fjölni og það gerðuð þið í stúkunni líka. Ég las á spjallinu á umfg.is það sem Hammerinn skrifaði um að til að fá góða stemmningu þurfa leikmenn að spila vel. Ég get ekki með nokkru móti verið sammála honum þó að vissulega skemmi það ekki fyrir að leikmenn spili vel. Ég segi hins vegar að þegar illa gengur og mikill mótbyr er þá er stuðningur og sú stemmning sem ég veit að fólk hér í Grindavík getur búið til fleitt liðinu í gegnum það. Stuðningsmenn KR þurftu allavega ekki góða spilamennsku síns liðs til að hirða stúkunna í fyrra þegar við áttum einn af okkar bestu leikjum sem spilaðir hafa verið á Grindavíkurvelli. Ekki sé ég heldur áhorfendur í kop stúkunni hjá ónefndu liði halda kjafti þegar þeirra lið spilar hörmulega eins og þeir gera oftast hehe

Óli Stefán 


Frábær leikur, frábærir stuðningsmenn

Loksins náðum við að sýna okkar fólki almennilega hvað við getum og hverju við erum góðir í, að halda bolta og spila á fáum snertingum. Maður bara fann það þegar við byrjuðum að við værum að detta á góðan dag, jafnvel þó að við lendum undir. Við spiluðum þann bolta sem að Jankó vill að við spilum og þá er ekki að spyrja að því. Ég var samt ekki alveg sáttur við að falla niður þegar við komumst yfir eins og er farið að gerast nokkuð oft en það kom ekki að sök því að við kláruðum leikinn með stæl.

Og þið gott fólk eigið stóran þátt í þessu því að þetta var það besta sem ég hef heyrt í sumar ásamt fyrsta leiknum á móti Stjörnunni. Þrátt fyrir rigningu og kulda var mikið fjör og læti of þetta gerir leikinn svo miklu miklu skemmtilegri.

Næst er það Reynir heima og ég skora á menn að ganga ekki að neinu vísu í þeim leik. Þetta verður hörku leikur og ef við höfum okkur ekki alla við þá fáum við ekkert úrúr honum. Ef einhverjir eiga að þekkja það að vera í botnbaráttu þá erum það við og við vitum því að þeir koma til með að gefa gjörsamlega allt í þennan leik. Hins vegar er mikið í húfi fyrir okkur því að fyrsta sætið er handan við hornið og þess virði að leggja allt í það að hirða dolluna. Takk fyrir góðan dag og auðvitað gerum við laugardaginn enn betri.

Óli Stefán 


Grindavík-Fjölnir

Nú er komið að einum af stærstu leikjum okkar í sumar og það er á móti Fjölni. Við höfum lent í smá mótlæti í síðustu leikjum þar sem fátt hefur fallið með okkur. Fjölnir er eitt heitasta lið landsins í dag og er komið alla leið í úrslitaleikinn í bikarnum. Með sigri á okkur á morgun komast þeir einnig á toppinn í þessari deild og fara fjórum stigum á undan okkar. Það sér það því hvert mannsbarn hversu mikilvægur leikur þetta er fyrir okkur.

Núna bið ég ykkur gott fólk að mæta á völlinn í gulu og láta í ykkur heyra. Ég bara held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað stuðningur hefur mikið að segja í svona leikjum. Ekki get ég sagt að þetta hafi þetta sumar hafi verið það besta sem stuðningsmenn okkar hafa átt þó svo að ég ætli aldrei að fara að gera lítið úr því fólki sem mætir á völlinn. Maður þarf ekki að leita lengra en upp á Laugardagsvöll þegar við spiluðum síðustu landsleiki en þar höfðu leikmenn á orði að fólk í stúkunni hafi svo til gert gæfumunin í þessum leikjum og þarna erum við að tala um menn sem eru vanir að spila fyrir tugi þúsunda í hverri viku.

Ég legg til að annar og þriðji flokkur karla og kvenna taki þetta verkefni að sér og búi til stemmningu sem að ég veit að þið getið. Takið svo hina með ykkur og búum til dag sem við eigum seint eftir að gleyma og jafnvel dag sem verður upphafið að einhverju nýju í stúkunni. Ég veit að þetta er kannski ekki í mínum verkahring að biðja um stemmningu en þar sem það er frítt á völlinn og við erum að tala um það að komast í úrvaldsdeildina að ári, því það er ekki komið ennþá, þá held ég að þið sem vetlingi getið valdið endilega komið og hjálpið okkur upp úr þessari deild því við þurfum á ykkur að halda.

Óli Stefán 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband