Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hin hliðin á stuðningsmanni Grindavíkur

Fullt nafn:

Tryggvi Þór Kristjánsson              

 

Gælunafn:

Ekkert sem ég vil kannast við

 

Aldur:

33 ára.. púff..mér sýnist að ég hafi dregið kombakkið í Grindavíkurliðið aðeins of lengi


Giftur/sambúð:

Í sambúð með Sylvíu Rún Ómarsdóttur


Börn:

Engin, en ég á fugl sem heitir Clint. Hann fær jafngóða meðferð og hvaða barn sem er

 

Hvað eldaðir þú síðast?

Kjúklingabringur, sveppi og papriku í rjómasveppasósu

 

Hvað vilt þú fá á pizzuna þína?

Pepperoni, ananas og svartan pipar


Hvernig gemsa áttu?

Nokia eitthvað


Uppáhaldssjónvarpsefni?

Sopranos og Scrubs


Besta bíómyndin?

Festen


Hvaða tónlist hlustar þú á?

Mest á Sylvíu glamra á gítarinn


Uppáhaldsútvarpsstöð?

Rás 2


Uppáhaldsdrykkur?

Þessi nýji rauði kristall, sem á örugglega eftir að uppgvötast að sé baneitraður eins og allt sem er gott

 

Uppáhaldsvefsíða ?

Baggalútur og BBC sport

 

Ertu hjátrúarfullur fyrir leiki (ef já, hvernig þá?)?

Ef ég mæti ekki með Sigga Birgis mér við hlið er ekki von á góðu


Hvernig er best að pirra andstæðinginn?

Með því að bróka þá. Gerði þetta einu sinni við Hálfdán Gíslason í leik við BÍ þegar ég spilaði með stórliði Reynis frá Hnífsdal. Hann var ekki vel sáttur, enda kannski ekki gaman að fá eigin skítarönd upp í háls. Ég endaði með slummu í hárinu en viti menn, hann gat ekki neitt eftir þetta og ég stakk honum í vasann.

 

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með?

Keflavík

 

Hvert var átrúnaðargoð þitt á yngri árum?

Eric Cantona


Erfiðasti andstæðingur?

Ég sjálfur


EKKI erfiðasti andstæðingur?

Bjarki Guðmundsson í badminton, ég er margfaldur Þorbjarnarmeistari í greininni


Besti samherjinn?

Það var gott að spila hafsent með Gutta

 

Sætasti sigurinn?

Einhvernveginn man maður betur eftir súrum töpum. Ég nefni samt leikinn í síðustu umferð úrvalsdeildar á hverju ári síðustu 10 ár, fyrir utan í fyrra.

 

Mestu vonbrigði?

Að falla í fyrra. Líka að fara blekaður inn í klefa eftir leik og taka í spaðann á öllum leikmönnum, það voru vonbrigði sem gleymast ekki..


Uppáhalds lið í enska boltanum?

Manchester United, ég meina komm on


Uppáhaldsknattspyrnumaður?

Ole Gunnar Solskjaer. Ég er með mynd af honum við hliðina á tölvunni í vinnunni og hann gefur innblástur


Besti íslenski knattspyrnumaðurinn fyrr og síðar?

Eiður Smári Guðjohnsen

 

Efnilegasti knattspyrnumaður landsins?

Ég ætla að takmarka þetta við Grindavík og nefna Alex, Jobba og Boga


Fallegasti knattspyrnumaðurinn í deildinni?

Óli Stefán ber af, slíkur þokki er vandfundinn

 

Fallegasta knattspyrnukonan?
Er Olga Færseth ennþá að spila..?

Grófasti leikmaður deildarinnar?

Bjarnólfur Lárusson er grófasti leikmaður allra deilda


Besti íþróttafréttamaðurinn?

Arnar Björns


EKKI besti íþróttafréttamaðurinn?

Eftir að hafa séð Hödda Magg og Gumma Torfa lýsa leik Suður Kóreu og Portúgal á HM 2002 þá get ég hvorki hlustað né horft á þá

 

Hver er mesti höstlerinn í liðinu?

Ég er nú svosem ekki að fylgjast með því, en ég get upplýst að Sigurður Birgisson er mesti höstlerinn í stúkunni, sérstaklega þegar hann kemur heltanaður úr ljósum


Hefurðu skorað sjálfsmark?

Man nú ekki eftir því, en ég vek athygli á því að Bjarki Guðmundsson hefur skorað tvö sjálfsmörk í sama leiknum

 

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik:

Ég dreg enn fram skemmtilegasta leik sem ég hef spilað, með GG á móti Víkingi í Ólafsvík. Við mættum 9 og þar af nokkrir skelþunnir, við enduðum 7 og hálfur eftir að Raggi var rekinn útaf og Golli hoppaði á annari inn í miðjuhringnum eftir að hafa meiðst um miðjan seinni hálfleik. Fram að því var leikurinn í járnum. Eftir þetta sigu þeir þó fram úr, en hetjuleg barátta Héðins Gilssonar í vinstri bakverðinum gleymist seint

 

Spilar þú Championship Manager tölvuleikinn?

Að sjálfssögðu, ég er afburðaspilari. Skil ekki fólk sem spilar þennan leik ekki

 

Hvenar lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki?

Man það nú ekki, einhversstaðar með GG

 

Hvernig finnst þér Fótbolti.net?

Ágæt síða

 

Kíkir þú oft á Fótbolti.net?

Nokkrum sinnum á dag

 

Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta, hverju myndir þú breyta?

Það er að banna dómara sem heita Erlendur Eiríksson

 

Hvern vildir þú sjá á sviði? (tónleikum)

Ég myndi mæta á kombakk hjá Sex Pistols, með þeim fyrirvara að Sid Vicious yrði með. Reyndar er hann dauður en það skiptir engu máli þar sem bassinn hans var hvort eð er aldrei tengdur

 

Hvað finnst þér leiðinlegast að gera á æfingu?

Að tapa á móti eldri

 

Hver er frægasta persónan sem þú ert með í farsímanum þínum?

Bjarki Guðmundsson, hann er í auglýsingabransanum

 

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í öllum heiminum?

Það er London, en á Íslandi er það örugglega stúkan okkar

 

Hversu lengi ertu að koma þér í gang á morgnanna?

Það er misjafnt, snúsið er oft vel notað

 

Hver er uppáhaldsÍÞRÓTTAMAÐURINN þinn?

Ole Gunnar Solskjaer, hann er súper fyrirmynd

 

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum?

Jájá, boxi og amerískum fótbolta meðal annars

 

Hver er uppáhalds platan þín?

Never Mind The Bollocks með Sex Pistols og The Man Who með Travis

 

Hvenær borgaðir þú þig síðast inn á knattspyrnuleik?

Ég borga mig inn á alla knattspyrnuleiki

 

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú?

Ég spila svo lítinn fótbolta, en vonandi lagast það þegar "fjölnota" fótboltahúsið kemur

 

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla?

Stærðfræði

 

Hvern skorar þú á í Hina hliðina næst??

Ég skora á Gunnar Már Gunnarsson að taka hina hliðina næst, en hann átti einmitt "stangarskotið sem glumdi um gervalla heimsbyggðina" í bikarúrsiltunum 1994.

Hvað er að frétta af Boga Rafni Einarssyni?

leikmenn06_bogi

  Bogi Rafn Einarsson er einn alefnilegasti leikmaður okkar Grindvíkinga en hann verður 19 ára núna í júní. Bogi hefur leikið 7 leiki fyrir yngri landslið Íslands og er tvímælalaust einn af framtíðarleikmönnum Grindavíkurliðsins. Hann hefur hins vegar átt við erfið meiðsli að stríða sem hafa sett handbremsu á þróun ferils þessa efnilega leikmanns.

  Þar sem við vitum að margir hafa áhuga, ákváðum við að biðja Boga að svara fyrir okkur nokkrum spurningum um heilsufarsástand hans og ýmislegt fleira og komum við ekki að tómum kofanum þar.

 

  

  Hvernig er staðan á þér varðandi meiðslin í dag?

 

  Staðan er þannig að ég fór í aðgerð þann 7. febrúar síðastliðinn og var sagt af lækni að ég yrði ekki kominn á völlinn aftur fyrr en 6 mánuðum eftir hana. Ef við reiknum það þá segir það okkur að í byrjun ágúst á ég að geta verið kominn á völlinn. Fyrstu þrjá mánuði eftir aðgerð var skipt í 3 lotur af lækninum sem voru þannig: 4 vikur í fatla, 4 vikur sjúkraþjálfun og gera ekki neitt og þar á eftir 4 vikur í endurhæfingu. Þetta gekk ég í gegnum og með endurhæfingunni þá hjólaði ég á þrekhjóli í akademíunni. Nú þegar rúmir 3 mánuðir eru liðnir frá aðgerð þá á liðbandið sem gert var við að vera gróið og er næsta í stöðunni hjá mér að styrkja á mér öxlina svo ég verði alveg klár í átökin á ný og hef ég undanfarið verið að reyna að refsa lóðunum í Helgasporti, ímyndið ykkur hvað ég er harður, með 1 kg lóð að lyfta og í erfiðleikum!

 

  Hvernig fer meðferð þín fram og hver sér um hana?

 

  Meðferð mín núna er í höndum Sreten Karimanovic og fer fram þannig að ég hitti hann í Hofi og hef verið í rafmagni í 20-30 mín og svo gerir hann hreyfiæfingar við öxlina til að liðka hana og auka hreyfigetu hennar. En áður meðan skólinn var í hápunkti þá var ég í sjúkraþjálfun hjá Fali Daðasyni sem sér um Keflavíkurliðið og reyndist hann mér einnig vel og gerði hann svipað og Srecko er að gera.

 

  Hvenær varðstu fyrir meiðslunum og hvað var það nákvæmlega sem varð til þess að þú meiddist?

 

  Þetta hefur verið röð óheppilegra atburða sem gerðu mér þann grikk að öxlin á mér skaddaðist svo illa. Þetta byrjaði allt í morgunkörfubolta hjá Sigga Jóns á undirbúningstímablilinu í fyrra þegar ég var að klobba Gumma Bjarna og endaði það á því að hann stjakaði lítillega við mér með þeim afleiðingum að ég datt illa á boltann með olnbogann, svolítið erfitt að útskýra það nákvæmlega, og líkaminn kom svo á eftir og hendin enn á boltanum og þar fór ég fyrst í öxlinni. Síðan þá var ég alltaf laus í öxlinni og ekki þurfti mikið að gerast til að ég missti allan mátt í hendinni og yrði lamaður í henni. Svo var ég heppinn með þetta næstu misseri á eftir og þá kom leikur við ÍBV á gamla aðalvellinum með 2.fl. Þar lenti ég í tæklingu og lenti svo illa ofan á hendinni að það sama gerðist. Ég man sérstaklega eftir því að Brynjar nuddari tók mig til hliðar í hálfleiksræðunni og þjösnaðist svona líka á mér eins og hann er þekktur fyrir og ég hélt ég dæi úr sársauka þar. En ég fór aftur inná og spilaði eins og hæna sem er lömuð á hægri vængnum þangað til Jankó tók mig útaf. Svo kom að stundinni sem held ég að allir Grindvíkingar hafa heyrt af. Úrslitaleikur um að komast upp í B riðil 2.fl og við unnum Hött sannfærandi á heimavelli 3-0 og eftir leikinn þá vildi ég þakka áhorfendum, sem voru fjölmargir, fyrir stuðninginn og hóaði í liðsfélagana og ákváðum við að renna okkur á maganum í átt að stúkunni. Allt kom fyrir ekki og ég endaði úr axlarlið eftir þetta fagn. Ekki meir um það að segja nema hvað að 3 vikum eftir þetta tók ég þátt í skemmtilegasta móti sem ég hef spilað í, Beer Cup FS, og í fyrsta leik keppti ég við Bensó og félaga og endaði það svo fallega að ég fór úr axlarlið. Síðan þá var stefnan sett á að fara í aðgerð. 

  Og hvað kalla læknarnir þessi meiðsli?

 

  Ég man nú ekki lækna útgáfuna af þessum meiðslum en mér skildist að liðböndin í öxlinni væru mjög slitin og eitthvað rifin. Liðpokinn sem er í öxlinni var losnaður frá og þurfti að sauma þetta eitthvað saman og laga. Svo var búið að klofna upphandleggsbeinið eða flysjast úr því. En læknarnir sögðu að þetta væri veruleg skemmd á öxlinni og þó þeir gerðu þessa aðgerð frekar oft þá var þetta illa skemmt.  

  Það hlýtur að vera erfitt að standa í þessu og horfa á liðið vera að spila á meðan þú ert meiddur. Hvernig hefur þér gengið að takast á við þetta mótlæti og hvernig ferðu að því?

 

  Já þetta er mjög erfitt og hvað þá núna þegar deildin er byrjuð. Í fyrstu þá var þetta allt í lagi og var ég fullur bjartsýni og náði að komast vel í takt við fótboltaheiminn í fatlanum með Fooball manager leiknum þar sem ég náði óaðfinnanlegu liði hjá West Ham. En svo liðu dagar, vikur og mánuðir og langaði mig í fótbolta. Mamma segir að ég hafi verið mjög pirraður alltaf og neikvæður á það að fara í fótbolta aftur. Gaf bara skít í þetta. En það þýðir ekki neitt og maður græðir ekkert á því. Þó svona þegar ég hugsa út í það hvað það væri gaman núna að vera partur af góðu gengi Grindavíkurliðsins, það sem af er, þá fer ég nánast í þennan pakka aftur að setja allt í lás og neikvæðni í hæsta marki. Það sem hjálpaði mér mjög var þegar ég fór með til Tyrklands þar sem ég var alveg inn í öllu sem var að gerast. Ég djöflaðist svolítið með bolta og svona var að gera æfingar á meðan.   

  En 2. flokkurinn. Hvernig líst þér á komandi tímabil hjá honum?

 

  Það er verðugt verkefni hjá okkur í "öðrum" að takast á við B riðilinn þar sem við eigum heima. Við höfum alltaf verið besta lið C riðilsins og aldrei komið okkur upp úr honum. Við erum með mjög gott lið og höfum við spilað lengi saman og þekkjum því hver annan mjög vel. Vandamálið er núna að við erum svo fáir. Þó var verið að sameinast við Reyni og fáum við þar allavega 3 sterka stráka. En mjög spennandi sumar er framundan fyrir annan flokkinn og gerði einnig gæfumuninn að fá Óskar aftur í markið. "Crane man" er samt alltaf á tánum á bekknum. 
 

  Hvenær vonastu til að vera kominn í búning Grindavíkurliðsins?

 

  Ég ætlaði mér að koma mun fyrr til baka en sagt var við mig í fyrstu. En þannig er það nú að maður verður að láta skynsemina ráða og bíða rólegur svo maður skjóti sig ekki í fótinn. En um miðjan ágúst ætti að vera raunhæft markmið fyrir mig að byrja alveg aftur en þó fer ég að fara að mæta og sparka eitthvað meira en ég geri núna. En annars ætla ég ekki að taka neina sénsa því ég er búinn að sætta mig við það núna að þetta tímabil er "off".

 

  Við þökkum Boga kærlega fyrir viðtalið og um leið og við óskum honum góðs bata og vonumst til að sjá hann sem fyrst á vellinum, viljum við minna hann á að nokkrir af albestu knattspyrnumönnum í sögu þjóðarinnar, eins og þeir Eiður og Arnór Guðjohnsen og Ásgeir Sigurvinsson svo einhverjir séu nefndir, eiga það allir sameiginlegt að áður en þeir fóru virkilega að blómstra sem knattspyrnumenn, gengur þeir allir í gegn um mjög erfið meiðsli. 

 


Átt þú miða í happdrættinu?

Nú hefur verið ákveðið hvenær dregið verður í happdrættinu sem fylgdi getraunaleiknum góða sem fram fór í vetur.

Dregið verður úr öllum seldum miðum og hefur verið ákveðið að gera það á miðvikudaginn í næstu viku.

Tilkynnt verður um vinningshafa hér og líklega víðar.

Leikmenn athugið!

Nú er síðasti sjens fyrir þá sem eiga eftir að skila inn happdrættisvinningum. Takið gjafabréfin með ykkur á æfingar.

Lucky Winner in Time for Christmas

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það jafnast ekkert á við að vinna stóran

vinning í happdrætti.

 


Æfing í dag

Það er æfing í dag kl 17.30. Svo ætla Gunnar Már og Jón Gauti að standa við sitt;)


Jafnt fyrir norðan

Það voru ekki bestu aðstæður sem hægt var að hugsa sér þarna fyrir norðan í gær þegar við spiluðum við KA. Þó að maður sé uppalinn Grindvíkingur þá var rokið of mikið fyrir minn smekk. Við spiluðum samt ágætis fótbolta og vorum með leikinn í okkar höndum nánast allan tímann en náðum ekki að opna vörn þeirra almennilega og því markalaust í leikslok. Plúsinn er að við erum að halda hreinu annan leikinn í röð og nánast ekki að fá á okkur færi en mínusinn er á móti að við skorum ekki. Næsti leikur er við Víking Ólafsvík og má búast við þéttum varnarmúr frá þeim þannig að við verðum að finna markaskóna fyrir fimmtudag. Við þökkum því fólki sem lét sig hafa það að mæta norður og styðja við bakið á okkur en það var ágætis fjöldi og heyrðist vel í þeim. Alveg til fyrirmyndar hjá ykkur.

Óli Stefán


KA-Grindavík

Nú um 15.00 í dag höldum við norður á Akureyri þar sem veturkonungur mun taka vel á móti okkur. Í kvöld spilum við leik við gula liðið þar sem kallast KA. Leikurinn hefst kl 19.00 og spilað verður á KA vellinum en ekki Akureyrarvelli eins og vani er. Reiknað er með 0 gráðum og norðan 5-7 þannig að betra er að búa sig vel. Við höfum byrjað ágætlega en það hefur ekkert að segja í kvöld því KA er með eitt af betri liðum deildarinnar og hafa alltaf verið erfiðir heim að sækja. Við komum til með að selja okkur dýrt og reynum eins og mögulegt er að ná þremur stigum með heim. Einhvað af fólki ætlar að rúlla norður sem er frábært og sjáumst við bara hress og kát á vellinum

Óli Stefán


Scotty leikmaður 2.umferðar

Skotinn knái Scott Ramsey var valinn leikmaður annarar umferðar á fotbolta.net. Karlinn er vel að þessu kominn enda átti hann frábæran leik á móti Leikni þar sem hann skoraði eitt og lagði upp annað. Gömlu taktarnir sem hann er frægur fyrir eru farnir að sjást og er það ekkert nema frábært fyrir okkur. Hér má sjá umfjöllun um Scotty á Fotbolti.net

Óli Stefán


Palli Guðmunds með G.G. í sigurleik

leikmenn06_pall Gleðigjafinn og öðlingurinn Páll Guðmundsson hefur ákveðið að skipta yfir í 3. deildarlið G.G., þar sem tækifæri þessa útsjónarsama miðjumanns í Grindavíkurliðinu hafa verið af skornum skammti undanfarið.

Hjá G.G. er hann að spila heila alvöruleiki og það er kannski eins gott fyrir knattspyrnuáhugamenn á svæðinu, þar sem hann gerði stórglæsilegt mark í 3:2 sigurleik gegn Kára frá Akranesi á gamla vellinum í gærkvöldi.

Palli stakk sér inn af miðjunni og tók góða sendingu á bringuna, áður en hann vippaði boltanum utanfótar til hægri yfir varnarmann og lagði hann af öryggi í bláhornið vinstra megin frá vítateigslínu.

Þó Palli hafi skipt yfir í Golfklúbbinn kemur hann til með að æfa áfram með okkur í Ungmennafélaginu og fögnum við því auðvitað sérstaklega.

Að lokum sendum við baráttukveðjur til G.G manna og hamingjuóskir vegna góðs sigurs á liði sem var alls ekki fjarri því að fara upp í 2. deild síðastliðið sumar. 


Tippleikurinn

loksins loksins eru komin úrslit í getraunaleiknum okkar vinsæla.  Yfir 200 manns hófu leikinn og spreyttu sig á enska seðlinum okkar og eftir 14 umferðir voru 11 jafnir með 10 leiki rétta sem er einstaklega góður árangur miðað við að aðeins má nota eitt tákn við hvern leik.  Þeir 11 sem eftir voru háðu svo bráðabana sem endaði með því að 4 stóðu eftir og voru þeir látnir tippa á fyrstu umferðina í 2 efstu deildunum hér á landi og greinilegt var á þeim úrslitum að kunnátta þeirra á knattspyrnu hér á landi mætti vera betri.  En loksins fékkst út um það skorið hver væri bestur í tippinu og var það engin annar en snillingurinn Bjarki Guðmundsson.  Í öðru sæti var Helga, í þriðja sæti var Nonni Gúnda og Ólöf tengdamamma hans Óla Stefáns í fjórða sæti en þess má til gamans geta að hún setti táknið 1 á alla leikina.  við leikmenn meistaraflokks Grindavíkur óskum þeim innilega til hamingju og verður vinningunum komið til þeirra við tækifæri.

 


Orðsending frá Sigga bakara

queenfan

 

 

 

 

 

 

Sigurður Enoksson, stórbakari og Arsenal maður gerði sér lítið fyrir og vann kosninguna um formannsembættið í Arsenalklúbbnum nú um helgina og óskum við honum innilega til hamingju með það 

Eftirfarandi orðsending barst okkur nú í dag frá Sigga:

 

Þakka kærlega fyrir stuðninginn strákar og góðu straumana sem þið gáfuð mér í þessari baráttu um formannsstólinn í mínum ylhýra Arsenalklúbb! Það skilar sér alltaf þegar fólk stendur saman og breiðir út sína útgeislun og góðan málstað!

Kær kveðja, Sigurður Enoksson, verðandi formaður Arsenal klúbbsins á Íslandi!!

P.S. Skulda ykkur einn greiða!!!! 

 

Hér má sjá niðurstöður kosninganna á vefsíðu klúbbsins 

 

fan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Siggi andaði léttar eftir 

sigurinn er ljósmyndari

vefsíðunnar heimsótti hann

á heimili hans í dag. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband