Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
"In the beginning was the voice. Voice is sounding breath, the audible sign of life."
--Ibid
"Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" söng Megas snilldarlega í lagi nokkru sem ég man ekkert hvað heitir.
Sjálfsagt eru þeir fleiri en teljandi eru á fingrum handar sem telja mig vera að beita þeirri fornu aðferð sem meistarinn minnist þarna á í texta sínum. En það er fjarri lagi.
Grein Óla Stefáns hér fyrir neðan er snilldarlega skrifuð og segir í örfáum orðum allt sem segja þarf um frammistöðu okkar leikmanna í leiknum gegn hinu baráttuglaða liði Fjölnis sem hreinlega pakkaði okkur saman, nánast alls staðar á vellinum í gærkvöldi.
Þrátt fyrir dapran leik af okkar hálfu er staðan góð þegar um þriðjungur af mótinu er liðinn. Sex sigrar, eitt jafntefli og eitt tap hlýtur að teljast ásættanlegur árangur, þó svo auðvitað megi deila um spilamennskuna í hverjum leik fyrir sig.
Í hinni stuttu og hnitmiðuðu grein sinni kemur Óli Stefán inn á að helst vildi hann geta endurgreitt aðgangseyrinn þeim sem komu og horfðu á okkur.
Takið eftir því að þarna segir Óli ekki, þeim sem komu og tóku þátt í leiknum með því að láta í sér heyra, heldur þeim sem komu og HORFÐU Á okkur.
Nú skal það algjörlega tekið fram og haft á hreinu að mér finnst það alveg hreint magnaður andsk... hvað það kemur alltaf margt fólk frá okkar tiltölulega smáa bæjarfélagi með okkur í útileikina og það jafnvel á föstudagskvöldum, og er það auðvitað frábært og ekkert nema gott eitt um það að segja, en spurningin er hins vegar:
Fyrst fólkið kemur á völlinn, hvers vegna syngur það þá ekki og lætur í sér heyra?
Nú þykist ég þekkja stóran hluta af því fólki sem mætir á völlinn og er það upp til hópa hið hressasta og lífsglaðasta, svona dags-daglega, og lætur sig gengi liðsins miklu máli skipta, en eins og staðan er í dag, verður bara að segjast að stuðningurinn er að langmestu leyti í formi.........
nærveru.
Mín hugmynd er sú að það vanti fyrst og fremst frumkvæði, því ég held að allir vilji hafa góða og líflega stemmningu á vellinum. Einnig erum við lítið samfélag og að mínu mati er því mikilvægt að fólk telji það ekki fyrir neðan sína virðingu, eða ekki vera sitt hlutverk, að sleppa af sér beislinu og láta að sér kveða í stúkunni, því hjá okkur munar svo sannarlega um hvern og einn. Sú staðreynd að við erum lítið samfélag, þar sem allir þekkja alla, ætti einnig að mínu mati að gera það að verkum að við ættum að eiga auðveldara með að skapa þessa fjölskyldustemmningu og samstöðu allra sem að boltanum koma, á leikdegi.
Allir þeir sem fylgst hafa að einhverju ráði með fótbolta vita um mikilvægi öflugra stuðningsmanna og hvernig þeir geta tekið þátt í leiknum, sem 12. leikmaðurinn og hvatt leikmenn til þess að sýna af sér hámarks frammistöðu. Einnig vita menn að það er einfaldlega miklu skemmtilegra að vera í stúkunni, þegar góð stemmning er til staðar. Það hefur hins vegar oftar en ekki verið þannig að til þess að okkar ágætu áhorfendur komist í gang, þurfa leikmennirnir að kveikja í þeim með frammistöðu sinni og jafnvel dugar það stundum ekki, því mikið var um það rætt í fyrrasumar að þegar við vorum 5-0 yfir á móti K.R. að varla heyrðist stuna eða "eitt-gott-klapp" frá okkar fólki.
Sumir myndu segja að þetta væri eðlilegt, og ekki sé hægt að ætlast til þess að áhorfendur hvetji liðið þegar það stendur sig eins og það gerði gegn Fjölni, en ég get ekki að því gert að mér finnst það dálítið öfugsnúið. Það er ekki eins og Fjölnisliðið hafi verið að brillera að undanförnu, en samt var stór hópur syngjandi nánast stanslaust frá því áður en leikurinn var flautaður á.
Fram kemur í grein John Koopman, A brief History of singing, að söngur er fyrirbæri sem varð til áður en menn hófu að nota hljóð til þess að tala saman, og segir þar að ekki sé til sú menning byggð af mönnum, sama hversu frumstæð hún er eða einangruð, sem ekki syngi. Ekki er nóg með að söngur sé fornt fyrirbæri um allan heim, heldur þjónar hann tilgangi. Maðurinn syngur og hefur alltaf gert, til þess að ákalla guði, rifja upp sögu sína, efla og styrkja anda, samstöðu og vinabönd innan ákveðinna hópa og síðast en ekki síst, auðvitað, til þess að skemmta sér og öðrum.
Svo við förum nú aðeins dýpra í þetta, þá eru einnig til rannsóknir sem sýna að söngur, og þá sérstaklega í hóp, hafi góð áhrif á geðheilsu. Í einni þeirra, sem framkvæmd var árið 2002, var hópi manna skipt í tvennt. Annar hópurinn (sem við getum kallað "Fjölnismenn") var látinn syngja hópsöngva í hálftíma en hinn hópurinn (sem við getum kallað "Grindvíkinga") sat og hlustaði á. Fyrir og eftir sönginn og einnig viku eftir, var gerð mæling á skapi hópmeðlimanna með þróuðum spurningalista og kom þá í ljós að líðan þeirra sem voru í sönghópnum, var mun betri, eftir á.
Eðlilega.
Í hópnum sem söng mátti finna marktækt minni áhrif streitu, spennu, reiði, þreytu, kraftleysis og uppnáms.
Önnur rannsókn, framkvæmd af þeim Lesta og Petocz sem framkvæmd var á vistmönnum elliheimilis á aldrinum 80-97 ára, leiddi í ljós að þátttaka í hópsöng hafði í för með sér bætta geðheilsu og bætta félagslega hegðun.
Á vefsíðunni Health and Wellness má svo finna grein þar sem niðurstaðan er sú að hvort sem fólk syngi saman í barbershop-kvartett, gospel-kórum, eða á hvaða formi sem er, þá sé það fólk sem í slíku taki þátt, mjög oft glaðara og hamingjusamara en þeir sem það gera ekki. Vísindamenn hafa rannsakað áhrif þau sem hópsöngur hefur á fólk, og niðurstöðurnar sýna fram á betra skap, minni streitu, og jafnvel virðist ónæmiskerfið hafa gott af hópsöngnum. Einnig kom í ljós að söngur skilar að miklu leyti sömu áhrifum og þær æfingar sem tengjast djúpri öndun og þekktar eru úr fræðum jóga og notaðar um allan heim. Söngurinn framkallar mjög svipaðan andardrátt og æfingarnar og þjálfar lungu, þind og magavöðva.
Já, söngurinn gefur þér jafnvel hið langþráða "six-pack".
Áfram heldur greinin því ekki virðist nóg með að söngurinn hafi góð áhrif á þann sem syngur.
Vitnað er í bók Harvard prófessorsins Robert Putnams "Bowling Alone: The Collapse and Revival of American Community" en þar kemur fram að höpsöngur geti hvatt áheyrendur til góðrar virkni, eins og til dæmis sjálfboðavinnu eða pólitískra aðgerða, og má svo sem komast þannig að orði að það hefði ekkert veitt af smá sjálfboðavinnu eða pólitískum aðgerðum hjá okkur leikmönnunum í gærkvöldi.
Putnam bendir einnig á hópsöng sem leið til þess að efla "félags-auð" sem byggður er upp af trausti og samhygð milli einstaklinga innan hópa og vinnur að því að gera fólk eins hamingjusamt og mögulegt er.
Grein þessari, sem hér um ræðir lýkur svo á tilvitnun í Garrison nokkurn Keilor, en hún er svohljóðandi:
"Að syngja svona, í félagsskap annara sála, og framkalla þessa samhljóma svo auðveldlega í einum rómi, og að gera þessa tóna svo ríka að þeir færi tár til augna þinna. Það er stórfengleiki."
Þessi pistill minn er ALLS ekki skrifaður til þess að gera lítið úr því góða fólki sem mætir og borgar sig inn á leiki hjá okkur. Hér er fyrst og fremst um að ræða laugardagsmorguns-hugleiðingu áður en formlegur undirbúningur fyrir hörkuleik gegn Eyjamönnum á mánudag hefst, og ef til vill ekki síður áminning til þeirra sem sækja völlinn um það að þeir geta svo sannarlega verið okkar tólfti maður, með því að taka virkan þátt í leiknum.
Og af lestri þessarar hugleiðingar má sjá, að það gæti jafnvel verið gott fyrir heilsu þína líka.
Þennan pistil byrjaði ég á tilvitnun í lag og því er við hæfi að enda hann líka á einni slíkri, en þar er um að ræða lag skoskrar sveitar sem ber nafnið Travis.
"Sing,sing,sing.....
for the love you bring, won´t mean a thing,
unless you sing...sing sing sing."
Skemmtilegt myndband þessa ágæta lags má finna hér
Góðar stundir.
Húni.
Íþróttir | 30.6.2007 | 12:05 (breytt kl. 12:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er það eina sem ég get sagt eftir svona hörmulega frammistöðu. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég vilja endurgreiða aðgangseyrin þeim sem komu að horfa á okkur. Við borgum ykkur þetta til baka á vellinum á mánudaginn.
Óli Stefán
Íþróttir | 29.6.2007 | 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í haust þegar við féllum varð fljótlega nokkuð ljóst að nokkrir leikmenn myndu yfirgefa skútuna. Flestir fóru þeir í úrvaldsdeildina til að sigra heiminn. Nú er deildin þar nánast hálfnuð og menn að standa sig misvel
Óðinn Árnason varnarmaðurinn sterki og fyrirliðið í fyrra fór í Fram. Hann festi sig strax í sessi og var að spila hafsent í vetur. Þegar Íslandsmótið byrjaði var hann færður í hægri bakvörð. Óðinn skoraði strax í sínum fyrsta leik, nokkuð sem pjakkurinn gerði ekki hjá okkur í 4 ár. Það sem ég hef séð og lesið um Óðinn þá viðist hann vera standa sig vel. Á spjallinu þeirra var jafnvel talað um að hann hafi verið þeirra jafnbesti maður í sumar.
David Hannah hafsentinn á móti Óðni fór í Fylki. Ég vil meina að hann hafi valið Fylki því að búningurinn þeirra er eins og Dundee United búningurinn en þar spilaði hann lengst um. David er búinn að spila vel og eru menn þar í skýunum með þessi kaup enda er hann hörku leikmaður og mikill leiðtogi.
Kristján Valdimarsson hægri bakvörður fór aftur heim í Árbæinn og er núna að spila hafsent með David. Stjáni er þar að koma mönnum verulega á óvart því hann er búinn að slá út menn eins og Val Fannar og Guðna Rúnar þannig að hann er heldur betur að standa sig. Reyndar var undirritaður að benda honum á það síðasta sumar að reyna að prufa hafsent þannig að það kemur mér ekki á óvart að hann sé að spila þar núna.
Óskar Örn Hauksson varð í haust einn eftirsóttasti leikmaður landsins þannig að það kom svosem ekkert á óvart að hann færi. Óskar valdi á endanum KR en hefur ekki náð að festa sig í sessi þar og er bara þræl óánægður enda góðu vanur hér í Grindó. Vonandi fer að birta til hjá honum því við vitum það allavega hér að Óskar er frábær leikmaður
Jóhann Þórhallsson sem skoraði 10 mörk fyrir okkur fór einnig í KR. Jói hefur heldur ekki náð að festa sig hjá KR og þarf að sitja löngum stundum á bekknum. Mér hreinlega finnst það skjóta skökku við að vera með svona marka maskínu á bekknum á meðan KR er ekki að skora mörk.
Jóhann Helgason fór í Val en var alltaf hikandi. Hann spilaði töluvert í vetur en datt síðan aftar í gogguna röðina hjá þeim þegar mótið nálgaðist. Jói var fljótur að sjá af sér og fór fram á það að vera lánaður til okkar. Eftir að hafa þurft smá tíma til að endurheimta sjálfstraustið hefur hann farið á kostum hvort sem er á miðjunni eða á kantinum. Jói skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik á móti Þór úti sem voru utan af velli og það síðara hugsanlega mark ársins.
Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum. Við erum allir í góðu sambandi við þessa drengi og sjást þeir oftar en ekki á leikjum hjá okkur núna í sumar.
Óli Stefán
Íþróttir | 29.6.2007 | 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Já það er óhætt að segja að það sé nóg að gera þessa dagana. Frá síðasta föstudagi þegar við spiluðum við Þrótt í deildinni og fram á mánudaginn næsta þegar við spilum við ÍBV þá erum við að spila 4 leiki á 10 dögum. Við spiluðum sem sagt við Þrótt í deildinni og unnum 2-1 æfðum sunnudag og mánudag spiluðum þriðjudag í bikarnum og töpuðum 0-1, frí í dag, æfum á morgun, spilum á föstudag við Fjölni í Grafarvogi, frí laugardag æfing sunnudag og leikur við ÍBV á mánudag. Við erum því að spila jafn marga leiki og við æfum á þessum tíma og svo er stórleikur við Reyni föstudaginn eftir ÍBV leikinn. Við nátturlega kvörtum ekkert yfir þessu en auðvitað tekur þetta á og gott að vera með stóran hóp. Að vísu hefur hópurinn þynnst jafnt og þétt síðustu vikur. Helgi Már er að byrja að skokka eftir meiðsli en ennþá er tími i hann. Mike er ennþá meiddur. Jóhann, Palli og Þorfinnur farnir í GG og Eyþór Atli hættur. Goran frá út tímabilið, Alex og Paul meiddir og ekki vitað hversu mikið sömuleiðis Scotty sem spilaði tæpur í bikarnum og gerði það illt verra. Þetta eru 10 leikmenn sem byrjuðu mótið en eru úti eins og staðan er í dag. Auðvitað er þetta ekki heimsendir og við erum ennþá með í lið. Það er líka gaman að segja frá því að í hópinn á móti Þrótti í bikarnum komu Emil Daði 18ára, Óli Daði 18 ára, Óli Baldur 17ára og Markó 16 ára. Ég vil að endingu hvetja menn til að mæta í Grafarvoginn á föstudag kl 20:00 og hjálpa okkur í gegnum þann slag. Vitað er að stuðningsmenn Fjölnis ætla að láta Andra Stein heyra það en Andri er uppalinn Fjölnismaður.
Óli Stefán
Íþróttir | 27.6.2007 | 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja þá er komið að Hammernum að sýna á sér hina hliðina. Það stendur ekki á svörunum hjá karlinum og það eru svör á tveimur spuningum sem koma held ég engum á óvart en það eru svörin við því hvað hann eldaði síðast og uppáhalds drykkur.
Fullt nafn: Gunnar Már Gunnarsson
Gælunafn: Ætli það sé ekki Hammerinn
Aldur: 34 ára
Giftur/sambúð: Ég er í sambúð með Siggu Hammer, barnabarni Gerðu Hammer og Sigurðs Ólafssonar heitins.
Börn: Ég á 3 börn sem vitað er um. Elst er Súsanna Margrét fædd 1996, næstur kemur Dagur Ingi fæddur árið 2000 og svo kom hún Tinna Björg í fyrra.
Hvað eldaðir þú síðast? Það var kalkúnn á sunnudaginn síðasta með La Gorme fyllingu sem er krydduð m.a. með Le Fleur og Belladonne kryddi frá Suður Ameríku. Nei veistu það að ég gersamlega fraus við þessa spurningu, það var nú sennilega bara samloka með skinku og osti í örbylgjunni.
Hvað vilt þú fá á pizzuna þína? Ég er hrifinn af skinku, osti og sveppum þessa dagana.
Hvernig gemsa áttu? Nokia
Uppáhaldssjónvarpsefni? Mér finnst uppáhaldsþættirnir hans Hjalla góðir, 24 og Shield. Svo þar sem ég er svo mikill dansari sjálfur að þá er "So you think you can dance" nokk góður!!
Besta bíómyndin? The Cellar Man
Hvaða tónlist hlustar þú á? Sennilega allt nema þungarokk.
Uppáhaldsútvarpsstöð? Bylgjan (bara fyrir Bjarka ;o))
Uppáhaldsdrykkur? Ég veit hvað sumir vilja sjá hérna en vatnið okkar er það besta sem ég fæ en jú....kaldur Viking er asskoti góður!
Uppáhaldsvefsíða ? http://www.sjova.is/ og http://www.landsbanki.is/ hmmm..!
Ertu hjátrúarfullur fyrir leiki (ef já, hvernig þá?)? Já ég verð að segja það. Ef einn kaldur dugar ekki fyrir marki þá verð ég að drekka annann. En ef einn dugar þá skálum við með öðrum og koll af kolli!
Hvernig er best að pirra andstæðinginn? Með því að sigra hann. Þoli ekki að tapa!
Hvaða liði myndir þú aldrei spila með? Man Utd.
Hvert var átrúnaðargoð þitt á yngri árum? Kenny Dalglish og Ian Rush
Erfiðasti andstæðingur? Bjarki Rooney Guðmundsson
EKKI erfiðasti andstæðingur? Ingvar Guðjónsson
Besti samherjinn? Guðjón Ásmundsson
Sætasti sigurinn? Að vinna Stjörnuna í í undanúrslitum bikarsins 1994 í vítasp. keppni. Haukur Braga snillingur var þá búinn að verja vítaspyrnu í framlengingunni. Annars voru leikirnir við FH og ÍBV í bikarnum þarna sama ár mjög sætir, líka í unnir í vítasp.keppni.
Mestu vonbrigði? Að setja'nn ekki í hörkuskotinu mínu í bikarúrslitunum á Laugardagsvellinum 1994 sem endaði í stönginni.
Uppáhalds lið í enska boltanum? Liverpool
Uppáhaldsknattspyrnumaður? Er og verður alltaf Kenny vinnur minn Dalglish.
Besti íslenski knattspyrnumaðurinn fyrr og síðar? Það er Eiður Smári.
Efnilegasti knattspyrnumaður landsins? Dagur Ingi Hammer að sjálfsögðu.
Fallegasti knattspyrnumaðurinn í deildinni? Það hlýtur bara að vera Gummi Bjarna, þvílíkan þokka sem maðurinn ber.
Fallegasta knattspyrnukonan? Elín Anna Steinarsdóttir
Grófasti leikmaður deildarinnar? ORRI!!
Besti íþróttafréttamaðurinn? Arnar Björnsson
EKKI besti íþróttafréttamaðurinn? Gaupi
Hver er mesti höstlerinn í liðinu? Dragan
Hefurðu skorað sjálfsmark? Ekki svo ég muni eftir og ég væri sennilega búinn að blokkera það út ef það hefði gerst.
Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Það var þarna einu sinni 1994 á móti KR.....;o))....neinei kem ekki með þessa sögu. Ég á bara enga góða sögu handa ykkur, minn fótboltaferill hefur greinilega verið hundleiðinlegur!
Spilar þú Championship Manager tölvuleikinn? Nei það geri ég ekki
Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki? Ég hreinlega man það bara ekki. Það hefur sennilega verið með vini mínum Bjarna Jóh 1992.
Hvernig finnst þér Fótbolti.net? Virkilega flott síða hjá þeim.
Kíkir þú oft á Fótbolti.net? Daglega
Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta, hverju myndir þú breyta? Þegar leikmaður fær rautt fyrir brot innan vítateigs og vítaspyrna er dæmd. Mér finnst það gróft, á bara að vera gult á leikmanninn.
Hvern vildir þú sjá á sviði? (tónleikum) Ingvar Guðjónsson
Hvað finnst þér leiðinlegast að gera á æfingu? Hlaupa án bolta
Hver er frægasta persónan sem þú ert með í farsímanum þínum? Ætli það sé ekki Gauji Einars, vallarstjóri á Húsatóftum.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í öllum heiminum? Það er klárlega smábæjarsálin sem stýrir mér í þessu svari og það er að sjálfsögðu Grindavík. Ég get ekki séð að ég muni nokkurn tímann fara héðan.
Hversu lengi ertu að koma þér í gang á morgnanna? Ég er lengi í gang.....það er pínu díselvél í mínum.
Hver er uppáhaldsÍÞRÓTTAMAÐURINN þinn? Leifur Köggull Guðjónsson
Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum? Fylgist og fylgist ekki...........hvað er íþrótt í dag?
Hver er uppáhalds platan þín? Ég plataði einu sinni Sibba í landsbankanum......það er uppáhaldsplatan mín.
Hvenær borgaðir þú þig síðast inn á knattspyrnuleik? Í fyrra einhverntímann.
Í hvernig fótboltaskóm spilar þú? Adidas
Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla? Sundi, agalega fannst mér þetta leiðinlegt og finnst enn!
Ég ætla svo að skora á hann Einar Hannes Harðarson, harðan sjálfstæðismann og stuðningsmann að koma með hina hliðina á sér.
Íþróttir | 27.6.2007 | 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þær leiðinlegu fréttir bárust okkur gær að Eyþór Atli væri hættur með Grindavík í en Eyþór hefur ekki fengið að spreyta sig sem skildi í sumar. Mér skilst að þessi ákvörðun hafi verið gerð í mesta bróðerni og auðvitað skilur maður karlinn að vissu leiti. Eyþór er gríðalega sterkur miðjumaður og einn af þeim betri í þessari deild og það eitt að hann sé ekki að spila sýnir kannski hvað við erum með sterkan hóp. Við leikmenn óskum Eyþóri velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur og vonumst auðvitað til að sjá hann sem fyrst í Grindavík aftur
Óli Stefán
Íþróttir | 26.6.2007 | 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verður bara að segjast alveg eins og er að þetta er mun skemmtilegri barátta heldur en sú sem við höfum staðið í undanfarin ár. Sigurinn í kvöld var ekkert ósvipaður þeim sem við höfum verið að taka í síðustu leikjum. Ég held að við höfum náð að skora í öllum leikjum tímabilsins á milli 80.-90min sem segir okkur það að við höfum verið að æfa rétt í vetur. Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að vera fara yfir það hvernig leikmenn stóðu sig í kvöld en verð þó að skella hrósi á ungu strákana okkar þá Óskar Péturs sem verður bara sterkari með hverjum leiknum og svo Jobbi karlinn sem spilar eins og hann hafi verið lengur en við gömlu karlarnir í þessu. Flott hjá ykkur strákar en það má ekkert missa sig heldur halda sig á jörðinni og bæta við. Næsti leikur verður við Þrótt á þriðjudag í bikarnum og við mætum svellkaldir í þann leik og hefnum ófaranna í fyrra þegar þeir slóu okkur út. Svo vil ég minna á myndirnar sem Hemmi tók úr leiknum í kvöld. Flottar myndir Hemmi
Óli Stefán
Íþróttir | 23.6.2007 | 00:59 (breytt kl. 01:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nú reynir virkilega á að við spilum vel á móti góðu liði Þróttara. Ég er búinn að sjá þá spila nokkrum sinnum á þessu ári og þeir eru með hörku lið sem á að fara beint upp. Ekki nóg með það að þeir séu með gott lið heldur eiga þeir eina bestu og skemmtilegustu stuðningsmenn landsins. Ég var aðeins að njósna á þeirra heimasíðu og þeir ætla að vera með sætaferðir hingað til Grindavíkur og ætla sér að mála bæinn rauðan og hvítan. Ég hvet því okkar góðu stuðningsmenn að mæta og láta virkilega í sér heyra. Flott væri ef annar flokkur okkar myndu mæta og sjá um stuðið og Jón Ágúst þú verður með gítarinn;) Við leikmenn komum til með að gera okkar til að leggja Þrótt á vellinum og þið sjáið um Köttarana í stúkunni. Áfram Grindavík
Óli Stefán
Íþróttir | 22.6.2007 | 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég var spurður að því í viðtali nú á dögunum hvaða leikmönnum mér hafi þótt best að spila með í gegnum tíðina. Reyndar er þetta svolítið ósanngjörn spurning því vissulega koma margir til greina. Ég held samt að það sé hjá öllum leikmönnum, þegar þeir eru að byrja, einhver sem maður lítur meira upp til og hjálpar manni að verða að alvöru leikmanni en aðrir. Ég hef nátturlega spilað með endalaust mörgum snillingum og margið hjálpað manni en einn er það þó sem ég hélt mikið uppá og geri enn þó að hann sé löngu hættur en það er Hjálmar Hallgrímsson. Það var nátturlega snilld fyrir unga púpu að hefja sinn meistaraflokksferil með svona snillingi sem kenndi manni að berjast og það að hata að tapa. Nú ætla ég að skella á smá könnun á ykkur strákar en endilega komið þið með ykkar leikmann, sem þið hélduð uppá þegar þið voruð að byrja og mótaði ykkar feril, hér í athugasemdum.
Óli Stefán
Íþróttir | 21.6.2007 | 00:26 (breytt kl. 00:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég held að það sé á hreinu að hvergi er betra að vera á sumrin í fótbolta en í Grindavík. Vellirnir að verða frábærir eftir erfitt vor. Þegar maður sér myndirnar af svæðinu sem Þorsteinn Gunnar tók úr flugvél verður maður enn stoltari af því að vera Grindvíkingur.
Við eigum næsta leik á þessum glæsilega velli á föstudag kl 20.00 við Þrótt Reykjavík. Þeir voru að spila í kvöld og unnu KA 2-0 og þar með eru þeir í öðru sæti með 13 stig. Þessi leikur verður því toppslagur af bestu gerð og hvet ég alla Grindvíkinga að mæta og láta virkilega í sér heyra því að Köttararnir ætla að mæta með fullt af liði og þykjast ætla að gera stúkuna rauða og hvíta. Við látum það ekki gerast og mætum öll í gulu.
Óli Stefán
Íþróttir | 20.6.2007 | 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
351 dagur til jóla
Spurt er
Af mbl.is
Tenglar
Annað
EAS
Aðeins síðri Grindavíkursíður
Aðrar síður sem innihalda íþróttir og bæjarmál í Grindavík
Heimasíður knattspyrnuliða hérlendis
Tenglar á síður heimasíður hjá knattspyrnuliðum á Íslandi
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |