Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Morgunæfing dauðans

rocky1a[1]Frábær æfing í morgun drengir. Gaman að koma suður í snjóbil og taka vel á því með félögunum. Dragó kann sko að láta menn taka á því og ég efast ekki um að við verðum í geðveiku formi í sumar með þessu framhaldi 

Á morgun stendur til að taka stigaleik í Reykjaneshöllinni kl 17.00. Nú verða menn að taka á því svo að sumir stingi ekki alveg af. Svo er mikill pakki leikmanna með 4-7 stig þannig að það væri flott að komast úr þeim pakka. 

Annað kvöld er svo annar leikur Grindavíkur og Skallagríms og ætlum við leikmenn meistarflokks í fótbolta að mæta í búningunum okkar og styðja félaga okkar til sigurs. Endilega sem flestir að mæta og koma okkar mönnum í undanúrslit. 


Breyttur tími í kvöld

æfingin í Garðabæ er klukkan 19.30 en ekki 20.30 eins og venjulega. Vonandi eru allir með þetta á hreinu

Óli Stebbi 


Góður sigur.

getGalImg[2]Við spiluðum við Val í Egilshöllinni í kvöld og til að gera langa sögu stutta þá lögðum við þá að velli 1-0. Þetta er nátturlega stór áfangi hjá okkur því að fyrir utan það að sigra í fyrsta skipti í leiðinlega langan tíma þá héldum við markinu líka hreinu sem er frábært. Ég held að menn geti verið sammála um að þetta var sigur liðsheildarinnar og nú geta menn séð hvað hægt er að gera ef menn standa saman og leggja allt sitt í leikinn. Senterarnir Andri og Goran voru fáránlega duglegir en þegar við erum með svona framlínu þá verður vinnan fyrir aftan mikið mun auðveldari. Miðjan var að eiga sinn besta leik, Orri og Paul settu upp kennslubókardæmi hvernig kantmenn eiga að spila. Vörnin var mjög samstíga og tók það sem fór í gegn því að Valur átti ekki mikið af færum og verður það að teljast nokkuð gott á mótu tveimur af bestu framherjum landsins þeim Helga Sig og Gumma Ben. Markmennirnir Óskar og Helgi átti einnig flottan leik og frábært fyrir alla að það sé bullandi samkeppni um þessa stöðu eins og aðrar.  

Jankó kom með mjög góðan punkt í hálfleik þegar hann spurði okkur af hverju við spilum ekki svona á móti minni spámönnum og er ég alveg ótrúlega sammála karlinum þarna. Það hefur loðað við lið Grindavíkur undafarin misseri að detta niður á spilamennsku andstæðinga okkar. Þetta er nokkuð sem á góðri íslensku kallast vanmat og tími til kominn að hætta því. Við höfum ekkert efni á að vanmeta eitt einasta lið og það kemur til með að reyna á þetta í sumar þannig að menn ættu að fara að vinna í þessu.

Flott vika að baki og töff tími fram að ferð

Óli Stebbi 


Nokkrar hugleiðingar um Sigga Bakara

Í KVÖLD: DEILDABIKAR: VALUR - GRINDAVÍK EGILSHÖLL 19:00 

 

Mikil og góð stemmning var á leiksýningunni Pabbinn í grunnskólanum í gær. Var ekki annað að sjá en gestir færu flestir hverjir sáttir heim enda verkið og flutningur Bjarna Hauks á því hreint ekkert slor.

Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar hann birtist í Grindavíkurtreyjunni í uppklappinu.

Óhætt er að fullyrða að þetta kvöld hafi gengið eins og í sögu og að allir sem sýninguna sóttu eða að henni stóðu hafi gengið sáttir frá borði. Hlátursrokurnar streymdu um salinn nánast samfleytt í tvo tíma og krónurnar streymdu í kassann vegna Tyrklandsferðar okkar meistaraflokksmanna.

Það tóku kannski færri eftir því að á meðan Bjarni Haukur fór á kostum á sviðinu fyrir allra augum, þá fóru Siggi Bakari og frú á kostum frammi á gangi, þar sem þau þeyttust um og skáru niður kökur og helltu upp á kaffi fyrir áhorfendur. Ekki er nóg með að þessi SANNKÖLLUÐU sómahjón hafi gefið okkur tíma sinn og orku í að sjá um þennan mikilvæga þátt, heldur tóku þau ekki krónu fyrir þær veitingar sem fóru ofan í sýningargesti í hléinu, heldur lögðu hverja einustu þeirra í ferðasjóð okkar meistaraflokksmanna.

"Að fá hluta af innkomunni? Fá borgaðan efniskostnað? Lágmarks tímakaup?

 Ekki að ræða það."

Það eina sem Siggi bakari sagði í gær að hann hefði áhyggjur af, var að einhver í salnum hefði þær ranghugmyndir í kollinum að hann væri að reyna að græða á samkomunni. 

Eins og það væri nú hrikalegur glæpur, ef svo væri. 

Hvað er það sem fær fólk til að standa í svona löguðu? Staldraðu aðeins við þá pælingu.

Það er náttúrulega ekkert annað en mannkostir eins og gjafmildi og óbilandi stuðningur við sitt félag. Ekki getur sá sem þetta skrifar að minnsta kosti fundið aðrar ástæður fyrir störfum þeirra hjóna þarna í gærkvöldi. 

Það er svona fólk sem gerir þetta félag okkar að því sem það er. 

Siggi bakari er einn af þessum mönnum sem hiklaust er hægt að segja að búi yfir GULL-GRINDAVÍKURHJARTA, því það vita allir sem koma nálægt fótboltanum hér í bæ að þetta er langt frá því í fyrsta sinn sem hann styður Grindvískt knattspyrnufólk með álíka hætti, auk ómetanlegra starfa hans fyrir unglingaráð í gegnum árin. 

Og ekki man sá er þetta ritar eftir því að hafa séð hann við þessi störf öðruvísi en með bros á vör og er hann alveg tvímælalaust skólabókardæmi um einstakling sem hægt er að taka sér til fyrirmyndar hvað varðar hugarfar og framtakssemi í félagsstörfum.

Verra mál er hins vegar að hann virðist aldrei geta farið úr þessari andsk...Arsenal treyju sinni. 

 

Leikmenn og aðstandendur meistaraflokks karla vilja þakka kærlega öllum þeim sem sóttu sýninguna í gær og Bjarna Hauki og aðstoðarmanni fyrir samstarfið. Ekki síst þökkum við Jónasi Þórhalls, en hann á langstærstan þátt í innkomu gærkvöldsins auk þess sem fregnir herma að hann hafi harðneitað boðsmiða frá fyrirtæki sínu og ekki tekið annað í mál en að borga sig inn.

SÉRSTAKAR þakkir frá Siggi Bakari og frú, auk sjóaranna Ingvars Guðjónssonar og Jóns Gauta Dagbjartssonar, sem sáu um að "draga okkur að landi" og fengu þeir félagar að sjálfsögðu nokkur vel valin fýluköst í andlitið fyrir:)

ÁFRAM GRINDAVÍK! 

stubburs

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hérastubbur bakari

 

Í KVÖLD (FIMMTUDAG): VALUR - GRINDAVÍK EGILSHÖLL 19:00 


Nóg að gera.

Það er sko ekki logn hjá okkur frekar en hjá Sigga storm. Í kvöld verður stórsýningin Pabbinn í Grunnskóla Grindavíkur og síðast þegar að ég vissi gekk salan alveg hreint með ágætum. Sýningin hefur frengið mjög góða dóma enda sömu menn að verki og gerðu Hellisbúann.

Á fimmtudag er svo stórleikur við Val í Egilshöllinni. Leikurinn hefst klukkan 19.00. Það verður spennandi að spila við Valsarana en þeir hafa ekki verið sterkari í mörg herrans ár og ég spái þeim hreinlega titlinum stóra næsta sumar. Ekki verður heldur leiðinlegt að fá að taka aðeins á Jóa Helga.

Eftir þennan leik verður frí frá leikjum í tvær vikur og þá verður þungt æfingaprógram en það verða 12 æfingar á 15 dögum þangað til við förum út. Við förum út 4.apríl og verðum þar til 14.apríl og þar æfum við tvisvar á dag og spilum einhverja leiki.

Herrakvöldið er svo áætlað 30.mars sem er að mér skilst laugardagur.

Ég vil svo að lokum taka undir með Húna en hann er frekar ósáttur við það hvað menn virðast oft áhugalausir í mörgum af okkar fjáröflunum. Nefndin hefur eytt miklum tíma í undirbúning í vetur og menn verða að leggja meira í þá vinnu sem við höfum fundið til.

Óli Stebbi


Ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið - Til leikmanna meistara - og 2. fl. karla

Jæja drengir.

 

Ekki hefur sala miða gengið jafn vel og vonast var eftir og nú þurfum við að klára þetta dæmi á morgun.

 

2. flokkur spilar æfingaleik annað kvöld en mætir í verkefni vegna þessarar miðasölu í gula húsið kl. 18:00 nema menn hafi MJÖG GÓÐA afsökun. Ef hún er til staðar, skulu menn hringja í síma 694-5215 og tilkynna hana NÚNA.

 

Þeir sem verða á æfingu í Grindavík klukkan 18:00 verða í gula húsinu, þar til sölu miða er lokið. Þeir sem hafa MJÖG GÓÐA afsökun fyrir að komast ekki í það hringi í síma 694-5215 og tilkynni hana NÚNA.

 

Mér er alveg sama hvað menn hafa selt og ekki selt, menn hætta ekki að hlaupa í leik þó þeir hafi skorað eitt-tvö mörk og ENNÞÁ SÍÐUR ef menn hafa skorað sjálfsmark.

 

E.H. 


KA-Grindavík umfjöllun

 Hér er að finna umfjöllun af leiknum í gær. Tekið af síðu KA manna

Fyrri hálfleikur:
Leikurinn byrjaði með miklum látum, Grindvíkingar áttu gott færi strax á fyrstu mínútu, þegar bakvörður þeirra lagði boltann út í skot, en það hitti ekki á markið. KA menn svöruðu að bragði, Svenni átti góða fyrirgjöf á Ibra, en skalli hans var vel varinn. Stuttu síðar áttu Grindvíkingar skot að marki, boltinn fór í höndina á Hjörvari en ekkert dæmt, og Grindvíkingar ósáttir með það.

Leikurinn var mjög hraður, og komust KA menn í ákjósanlega stöðu í næstu sókn en síðasta sendingin hitti ekki á mann. Mjög jafnt var á með liðunum í upphafi, en á 21. mínútu komust KA menn yfir. Almarr vann skallabolta á miðjunni, skallaði á Elmar sem sendi góða stungusendingu á Svein Elías. Hann skaut með fyrstu snertingu og kom KA mönnum yfir (1-0). Grindvíkingar sóttu mikið upp kantana en Sandor var eins og kóngur í ríki sínu í öllum fyrirgjöfum.

Grindvíkingar voru ekki lengi að svara, og á 27. mínútu komust þeir þrír gegn tveimur varnarmönnum. Orri Freyr lék á einn varnarmann KA og skoraði, en Sandor hafði hendur á boltanum og munaði engu að hann næði að verja (1-1).

Grindvíkingar komust aftur í skyndisókn eftir horn suttu síðar, en þá gerðu
varnarmenn KA vel, og lauk sókninni með slöku skoti yfir markið. Í lok fyrri hálfleiks átti Ibra góða sendingu á Svenna, en það munaði hársbreidd að hann næði að skalla boltann á markið. Grindvíkingar fengu gott skallafæri í síðustu sókn fyrri hálfleiks, en Sandor greip boltann auðveldlega eins og svo oft í leiknum en hann átti frábæran leik í markinu.

Seinni hálfleikur:
KA menn áttu fyrsta færi seinni hálfleiks. Á 50 mínútu þvældi Ibra varnarmann Grindvíkinga og var kominn í ágætt skotfæri, en annar varnarmaður Grindvíkinga komst fyrir skotið,
boltinn hrökk til Sveins, en skot hans var einnig varið í horn. Eftir hornið skaut Almarr fyrir utan teig, boltinn fór af varnarmanni og fyrir markið. Þá var hangið aftan í Ibra og réttilega dæmt víti. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega með góðu skoti í vinstri samskeytin (2-1).

Grindvíkingarnir létu þetta ekki á sig fá, og mínútu síðar komust þeir í dauðafæri eftir fyrirgjöf vinstra megin, en skotið fór í innanverða stöngina og útaf. Liðin sóttu bæði af krafti
næstu mínúturnar án þess þó að ógna markinu neitt sérstaklega.

Á 75. mínútu dró til tíðinda. Sveinn Elías vann boltann af aftasta varnarmanni Grindvíkinga, og komst framhjá markmanni þeirra, þegar hann kippti undan honum löppunum. Marínó, dómara leiksins, þótti hins vegar ekkert athugavert við þetta og dæmdi hornspyrnu. Sveinn hefur líklega
látið einhver misfögur orð falla, því eftir spjall við línuvörð leiksins dró hann upp rauða spjaldið og rak Svein í bað.

Grindvíkingar sóttu af krafti, en náðu þó ekki almennilegu skoti á markið. Arnór Egill, sem var nýkominn inná, átti ágætt skot á 85. mínútu en það hitti ekki á markið. Það var komið fram yfir venjulegan leiktíma þegar Grindvíkingar fengu aukaspyrnu út á vinstri kanti. Scott Ramsey tók spyrnuna, Grindvíkingar fengu frían skalla á markið, óverjandi fyrir Steinþór sem var nýkominn í markið fyrir Sandor. KA-mennirnir í teignum vildu meina að Þorvaldur Sveinn hafi verið tosaður niður en ekkert var dæmt og markið stóð (2-2).

Niðurstaðan því afar svekkjandi 2-2 jafntefli en fyrsta stigið í hús. Næsti leikur er gegn Víkingum næstkomandi laugardag.

Óli Stebbi


Vantar þig miða á leiksýninguna?

Enn eru nokkrir miðar eftir á leiksýninguna "PABBINN" sem fram fer í grunnskólanum á miðvikudaginn.

Ef þú vilt tryggja þér einn slíkan, geturðu haft samband við einhvern af leikmönnum meistaraflokks, kíkt upp í gula hús eða sent tölvupóst á manonthemoon10@gmail.com.

Miðaverð er 3.500 krónur og hjón fá tvo miða á 6.000. 

Stuðningurinn er mikilvægur og það verður víst enginn svikinn af þessari sýningu.

Skoðið: www.pabbinn.is 

banner6

 

 

 

 

 

LEIKMENN meistaraflokks athugið!

Ef þið eigið óselda miða eftir er mjög mikilvægt að koma með þá á æfingu í kvöld.

 

E.H. 


KA-Grindavík

Nú rétt í þessu var að ljúka leik okkar manna við KA fyrir norðan og endaði hann 2-2. Orri og Andri Steinn skorðu mörkin en Andri jafnaði á síðustu mínutu leiksins. Jankó sagði í símaviðtali við Grindavik.blog.is að leikur okkar manna hafi verið ágætur og möguleiki að skora fleiri mörk. Hann var hins vegar ekki sáttur við varnarleikinn og ósáttur við að fá 2 mörk á okkur.

Óli Stebbi


Gömul færsla

Ég var að grafa upp gamla færslu þegar ég var að prufa bloggheiminn árið 2004 þegar Zelko var þjálfari sælla minninga. Á þessum tíma vorum við að fara æfingaferð til Belgrad og við æfðum oft tvisvar á dag svona eins og KRingarnir gera í dag. Ég ætla að skella nokkrum gömlum færslum hér inn næstu daga.

 

Miðvikudagurinn 17.mars 2004

15 dagar í Belgrad

 

Já góðir hálsar það eru ekki nema 2 vikur í brottför. Við (Grindavíkurliðið) erum semsagt á leiðinni til Belgrad að æfa og spila í 10 daga. Án efa verður stóra stundin leikurinn við Rauðu Stjörnuna frá Belgrad. Þetta er nátturlega eitt af stærstu liðum evrópu og á að baki glæsilega sögu. Önnur stór stund í þessari ferð verður nátturlega heimsókn til fjölskyldu Kela (Sinisa Kekic) en hún býr í 30min akstursleið frá hóteli okkar og það stendur til að halda veislu þar sem við fáum að borða og drekka eins og við í okkur getum látið. Það verður spennandi að kynnast þessari menningu sérstaklega í ljósi þess að það hafa í gegnum tíðina komið margir júgóslavar hingað og margir þeirra orðið mjög góðir vinir mínir.

Í dag var þriðja báráttan við Þorbjörninn háð. Og í dag hafði Þorbjörninn næstum því betur. Þegar um 20 metrar voru á eftir á toppinn var ég á mörkum þess að gefast upp en einhvernveginn náðu lappirnar að bera mig þennan spöl sem eftir var.  Ég lærði það í dag að vanmeta þetta þetta tignarlega fjall aldrei aftur. Ég skora á alla að prufa að hlaupa upp fjallið og þá held ég að menn viti hvað ég er að tala um.
Óli Stebbi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband