Bogi Rafn Einarsson er einn alefnilegasti leikmaður okkar Grindvíkinga en hann verður 19 ára núna í júní. Bogi hefur leikið 7 leiki fyrir yngri landslið Íslands og er tvímælalaust einn af framtíðarleikmönnum Grindavíkurliðsins. Hann hefur hins vegar átt við erfið meiðsli að stríða sem hafa sett handbremsu á þróun ferils þessa efnilega leikmanns.
Þar sem við vitum að margir hafa áhuga, ákváðum við að biðja Boga að svara fyrir okkur nokkrum spurningum um heilsufarsástand hans og ýmislegt fleira og komum við ekki að tómum kofanum þar.
Hvernig er staðan á þér varðandi meiðslin í dag?
Staðan er þannig að ég fór í aðgerð þann 7. febrúar síðastliðinn og var sagt af lækni að ég yrði ekki kominn á völlinn aftur fyrr en 6 mánuðum eftir hana. Ef við reiknum það þá segir það okkur að í byrjun ágúst á ég að geta verið kominn á völlinn. Fyrstu þrjá mánuði eftir aðgerð var skipt í 3 lotur af lækninum sem voru þannig: 4 vikur í fatla, 4 vikur sjúkraþjálfun og gera ekki neitt og þar á eftir 4 vikur í endurhæfingu. Þetta gekk ég í gegnum og með endurhæfingunni þá hjólaði ég á þrekhjóli í akademíunni. Nú þegar rúmir 3 mánuðir eru liðnir frá aðgerð þá á liðbandið sem gert var við að vera gróið og er næsta í stöðunni hjá mér að styrkja á mér öxlina svo ég verði alveg klár í átökin á ný og hef ég undanfarið verið að reyna að refsa lóðunum í Helgasporti, ímyndið ykkur hvað ég er harður, með 1 kg lóð að lyfta og í erfiðleikum!
Hvernig fer meðferð þín fram og hver sér um hana?
Meðferð mín núna er í höndum Sreten Karimanovic og fer fram þannig að ég hitti hann í Hofi og hef verið í rafmagni í 20-30 mín og svo gerir hann hreyfiæfingar við öxlina til að liðka hana og auka hreyfigetu hennar. En áður meðan skólinn var í hápunkti þá var ég í sjúkraþjálfun hjá Fali Daðasyni sem sér um Keflavíkurliðið og reyndist hann mér einnig vel og gerði hann svipað og Srecko er að gera.
Hvenær varðstu fyrir meiðslunum og hvað var það nákvæmlega sem varð til þess að þú meiddist?
Þetta hefur verið röð óheppilegra atburða sem gerðu mér þann grikk að öxlin á mér skaddaðist svo illa. Þetta byrjaði allt í morgunkörfubolta hjá Sigga Jóns á undirbúningstímablilinu í fyrra þegar ég var að klobba Gumma Bjarna og endaði það á því að hann stjakaði lítillega við mér með þeim afleiðingum að ég datt illa á boltann með olnbogann, svolítið erfitt að útskýra það nákvæmlega, og líkaminn kom svo á eftir og hendin enn á boltanum og þar fór ég fyrst í öxlinni. Síðan þá var ég alltaf laus í öxlinni og ekki þurfti mikið að gerast til að ég missti allan mátt í hendinni og yrði lamaður í henni. Svo var ég heppinn með þetta næstu misseri á eftir og þá kom leikur við ÍBV á gamla aðalvellinum með 2.fl. Þar lenti ég í tæklingu og lenti svo illa ofan á hendinni að það sama gerðist. Ég man sérstaklega eftir því að Brynjar nuddari tók mig til hliðar í hálfleiksræðunni og þjösnaðist svona líka á mér eins og hann er þekktur fyrir og ég hélt ég dæi úr sársauka þar. En ég fór aftur inná og spilaði eins og hæna sem er lömuð á hægri vængnum þangað til Jankó tók mig útaf. Svo kom að stundinni sem held ég að allir Grindvíkingar hafa heyrt af. Úrslitaleikur um að komast upp í B riðil 2.fl og við unnum Hött sannfærandi á heimavelli 3-0 og eftir leikinn þá vildi ég þakka áhorfendum, sem voru fjölmargir, fyrir stuðninginn og hóaði í liðsfélagana og ákváðum við að renna okkur á maganum í átt að stúkunni. Allt kom fyrir ekki og ég endaði úr axlarlið eftir þetta fagn. Ekki meir um það að segja nema hvað að 3 vikum eftir þetta tók ég þátt í skemmtilegasta móti sem ég hef spilað í, Beer Cup FS, og í fyrsta leik keppti ég við Bensó og félaga og endaði það svo fallega að ég fór úr axlarlið. Síðan þá var stefnan sett á að fara í aðgerð.
Og hvað kalla læknarnir þessi meiðsli?
Ég man nú ekki lækna útgáfuna af þessum meiðslum en mér skildist að liðböndin í öxlinni væru mjög slitin og eitthvað rifin. Liðpokinn sem er í öxlinni var losnaður frá og þurfti að sauma þetta eitthvað saman og laga. Svo var búið að klofna upphandleggsbeinið eða flysjast úr því. En læknarnir sögðu að þetta væri veruleg skemmd á öxlinni og þó þeir gerðu þessa aðgerð frekar oft þá var þetta illa skemmt.
Það hlýtur að vera erfitt að standa í þessu og horfa á liðið vera að spila á meðan þú ert meiddur. Hvernig hefur þér gengið að takast á við þetta mótlæti og hvernig ferðu að því?
Já þetta er mjög erfitt og hvað þá núna þegar deildin er byrjuð. Í fyrstu þá var þetta allt í lagi og var ég fullur bjartsýni og náði að komast vel í takt við fótboltaheiminn í fatlanum með Fooball manager leiknum þar sem ég náði óaðfinnanlegu liði hjá West Ham. En svo liðu dagar, vikur og mánuðir og langaði mig í fótbolta. Mamma segir að ég hafi verið mjög pirraður alltaf og neikvæður á það að fara í fótbolta aftur. Gaf bara skít í þetta. En það þýðir ekki neitt og maður græðir ekkert á því. Þó svona þegar ég hugsa út í það hvað það væri gaman núna að vera partur af góðu gengi Grindavíkurliðsins, það sem af er, þá fer ég nánast í þennan pakka aftur að setja allt í lás og neikvæðni í hæsta marki. Það sem hjálpaði mér mjög var þegar ég fór með til Tyrklands þar sem ég var alveg inn í öllu sem var að gerast. Ég djöflaðist svolítið með bolta og svona var að gera æfingar á meðan.
En 2. flokkurinn. Hvernig líst þér á komandi tímabil hjá honum?
Það er verðugt verkefni hjá okkur í "öðrum" að takast á við B riðilinn þar sem við eigum heima. Við höfum alltaf verið besta lið C riðilsins og aldrei komið okkur upp úr honum. Við erum með mjög gott lið og höfum við spilað lengi saman og þekkjum því hver annan mjög vel. Vandamálið er núna að við erum svo fáir. Þó var verið að sameinast við Reyni og fáum við þar allavega 3 sterka stráka. En mjög spennandi sumar er framundan fyrir annan flokkinn og gerði einnig gæfumuninn að fá Óskar aftur í markið. "Crane man" er samt alltaf á tánum á bekknum.
Hvenær vonastu til að vera kominn í búning Grindavíkurliðsins?
Ég ætlaði mér að koma mun fyrr til baka en sagt var við mig í fyrstu. En þannig er það nú að maður verður að láta skynsemina ráða og bíða rólegur svo maður skjóti sig ekki í fótinn. En um miðjan ágúst ætti að vera raunhæft markmið fyrir mig að byrja alveg aftur en þó fer ég að fara að mæta og sparka eitthvað meira en ég geri núna. En annars ætla ég ekki að taka neina sénsa því ég er búinn að sætta mig við það núna að þetta tímabil er "off".
Við þökkum Boga kærlega fyrir viðtalið og um leið og við óskum honum góðs bata og vonumst til að sjá hann sem fyrst á vellinum, viljum við minna hann á að nokkrir af albestu knattspyrnumönnum í sögu þjóðarinnar, eins og þeir Eiður og Arnór Guðjohnsen og Ásgeir Sigurvinsson svo einhverjir séu nefndir, eiga það allir sameiginlegt að áður en þeir fóru virkilega að blómstra sem knattspyrnumenn, gengur þeir allir í gegn um mjög erfið meiðsli.
Flokkur: Íþróttir | 28.5.2007 | 21:38 (breytt kl. 21:44) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
350 dagar til jóla
Spurt er
Af mbl.is
Tenglar
Annað
EAS
Aðeins síðri Grindavíkursíður
Aðrar síður sem innihalda íþróttir og bæjarmál í Grindavík
Heimasíður knattspyrnuliða hérlendis
Tenglar á síður heimasíður hjá knattspyrnuliðum á Íslandi
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Athugasemdir
Örugglega þræl erfitt að standa í svona. Gott viðtal og flott að sjá það að þú ert jákvæður en ég held að það sé stór hluti í því að ná sér og koma sterkur til baka. Sjáumst fljótlega á vellinum
Óli Stefán
Sjö-an (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.