"In the beginning was the voice. Voice is sounding breath, the audible sign of life."
--Ibid
"Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" söng Megas snilldarlega í lagi nokkru sem ég man ekkert hvað heitir.
Sjálfsagt eru þeir fleiri en teljandi eru á fingrum handar sem telja mig vera að beita þeirri fornu aðferð sem meistarinn minnist þarna á í texta sínum. En það er fjarri lagi.
Grein Óla Stefáns hér fyrir neðan er snilldarlega skrifuð og segir í örfáum orðum allt sem segja þarf um frammistöðu okkar leikmanna í leiknum gegn hinu baráttuglaða liði Fjölnis sem hreinlega pakkaði okkur saman, nánast alls staðar á vellinum í gærkvöldi.
Þrátt fyrir dapran leik af okkar hálfu er staðan góð þegar um þriðjungur af mótinu er liðinn. Sex sigrar, eitt jafntefli og eitt tap hlýtur að teljast ásættanlegur árangur, þó svo auðvitað megi deila um spilamennskuna í hverjum leik fyrir sig.
Í hinni stuttu og hnitmiðuðu grein sinni kemur Óli Stefán inn á að helst vildi hann geta endurgreitt aðgangseyrinn þeim sem komu og horfðu á okkur.
Takið eftir því að þarna segir Óli ekki, þeim sem komu og tóku þátt í leiknum með því að láta í sér heyra, heldur þeim sem komu og HORFÐU Á okkur.
Nú skal það algjörlega tekið fram og haft á hreinu að mér finnst það alveg hreint magnaður andsk... hvað það kemur alltaf margt fólk frá okkar tiltölulega smáa bæjarfélagi með okkur í útileikina og það jafnvel á föstudagskvöldum, og er það auðvitað frábært og ekkert nema gott eitt um það að segja, en spurningin er hins vegar:
Fyrst fólkið kemur á völlinn, hvers vegna syngur það þá ekki og lætur í sér heyra?
Nú þykist ég þekkja stóran hluta af því fólki sem mætir á völlinn og er það upp til hópa hið hressasta og lífsglaðasta, svona dags-daglega, og lætur sig gengi liðsins miklu máli skipta, en eins og staðan er í dag, verður bara að segjast að stuðningurinn er að langmestu leyti í formi.........
nærveru.
Mín hugmynd er sú að það vanti fyrst og fremst frumkvæði, því ég held að allir vilji hafa góða og líflega stemmningu á vellinum. Einnig erum við lítið samfélag og að mínu mati er því mikilvægt að fólk telji það ekki fyrir neðan sína virðingu, eða ekki vera sitt hlutverk, að sleppa af sér beislinu og láta að sér kveða í stúkunni, því hjá okkur munar svo sannarlega um hvern og einn. Sú staðreynd að við erum lítið samfélag, þar sem allir þekkja alla, ætti einnig að mínu mati að gera það að verkum að við ættum að eiga auðveldara með að skapa þessa fjölskyldustemmningu og samstöðu allra sem að boltanum koma, á leikdegi.
Allir þeir sem fylgst hafa að einhverju ráði með fótbolta vita um mikilvægi öflugra stuðningsmanna og hvernig þeir geta tekið þátt í leiknum, sem 12. leikmaðurinn og hvatt leikmenn til þess að sýna af sér hámarks frammistöðu. Einnig vita menn að það er einfaldlega miklu skemmtilegra að vera í stúkunni, þegar góð stemmning er til staðar. Það hefur hins vegar oftar en ekki verið þannig að til þess að okkar ágætu áhorfendur komist í gang, þurfa leikmennirnir að kveikja í þeim með frammistöðu sinni og jafnvel dugar það stundum ekki, því mikið var um það rætt í fyrrasumar að þegar við vorum 5-0 yfir á móti K.R. að varla heyrðist stuna eða "eitt-gott-klapp" frá okkar fólki.
Sumir myndu segja að þetta væri eðlilegt, og ekki sé hægt að ætlast til þess að áhorfendur hvetji liðið þegar það stendur sig eins og það gerði gegn Fjölni, en ég get ekki að því gert að mér finnst það dálítið öfugsnúið. Það er ekki eins og Fjölnisliðið hafi verið að brillera að undanförnu, en samt var stór hópur syngjandi nánast stanslaust frá því áður en leikurinn var flautaður á.
Fram kemur í grein John Koopman, A brief History of singing, að söngur er fyrirbæri sem varð til áður en menn hófu að nota hljóð til þess að tala saman, og segir þar að ekki sé til sú menning byggð af mönnum, sama hversu frumstæð hún er eða einangruð, sem ekki syngi. Ekki er nóg með að söngur sé fornt fyrirbæri um allan heim, heldur þjónar hann tilgangi. Maðurinn syngur og hefur alltaf gert, til þess að ákalla guði, rifja upp sögu sína, efla og styrkja anda, samstöðu og vinabönd innan ákveðinna hópa og síðast en ekki síst, auðvitað, til þess að skemmta sér og öðrum.
Svo við förum nú aðeins dýpra í þetta, þá eru einnig til rannsóknir sem sýna að söngur, og þá sérstaklega í hóp, hafi góð áhrif á geðheilsu. Í einni þeirra, sem framkvæmd var árið 2002, var hópi manna skipt í tvennt. Annar hópurinn (sem við getum kallað "Fjölnismenn") var látinn syngja hópsöngva í hálftíma en hinn hópurinn (sem við getum kallað "Grindvíkinga") sat og hlustaði á. Fyrir og eftir sönginn og einnig viku eftir, var gerð mæling á skapi hópmeðlimanna með þróuðum spurningalista og kom þá í ljós að líðan þeirra sem voru í sönghópnum, var mun betri, eftir á.
Eðlilega.
Í hópnum sem söng mátti finna marktækt minni áhrif streitu, spennu, reiði, þreytu, kraftleysis og uppnáms.
Önnur rannsókn, framkvæmd af þeim Lesta og Petocz sem framkvæmd var á vistmönnum elliheimilis á aldrinum 80-97 ára, leiddi í ljós að þátttaka í hópsöng hafði í för með sér bætta geðheilsu og bætta félagslega hegðun.
Á vefsíðunni Health and Wellness má svo finna grein þar sem niðurstaðan er sú að hvort sem fólk syngi saman í barbershop-kvartett, gospel-kórum, eða á hvaða formi sem er, þá sé það fólk sem í slíku taki þátt, mjög oft glaðara og hamingjusamara en þeir sem það gera ekki. Vísindamenn hafa rannsakað áhrif þau sem hópsöngur hefur á fólk, og niðurstöðurnar sýna fram á betra skap, minni streitu, og jafnvel virðist ónæmiskerfið hafa gott af hópsöngnum. Einnig kom í ljós að söngur skilar að miklu leyti sömu áhrifum og þær æfingar sem tengjast djúpri öndun og þekktar eru úr fræðum jóga og notaðar um allan heim. Söngurinn framkallar mjög svipaðan andardrátt og æfingarnar og þjálfar lungu, þind og magavöðva.
Já, söngurinn gefur þér jafnvel hið langþráða "six-pack".
Áfram heldur greinin því ekki virðist nóg með að söngurinn hafi góð áhrif á þann sem syngur.
Vitnað er í bók Harvard prófessorsins Robert Putnams "Bowling Alone: The Collapse and Revival of American Community" en þar kemur fram að höpsöngur geti hvatt áheyrendur til góðrar virkni, eins og til dæmis sjálfboðavinnu eða pólitískra aðgerða, og má svo sem komast þannig að orði að það hefði ekkert veitt af smá sjálfboðavinnu eða pólitískum aðgerðum hjá okkur leikmönnunum í gærkvöldi.
Putnam bendir einnig á hópsöng sem leið til þess að efla "félags-auð" sem byggður er upp af trausti og samhygð milli einstaklinga innan hópa og vinnur að því að gera fólk eins hamingjusamt og mögulegt er.
Grein þessari, sem hér um ræðir lýkur svo á tilvitnun í Garrison nokkurn Keilor, en hún er svohljóðandi:
"Að syngja svona, í félagsskap annara sála, og framkalla þessa samhljóma svo auðveldlega í einum rómi, og að gera þessa tóna svo ríka að þeir færi tár til augna þinna. Það er stórfengleiki."
Þessi pistill minn er ALLS ekki skrifaður til þess að gera lítið úr því góða fólki sem mætir og borgar sig inn á leiki hjá okkur. Hér er fyrst og fremst um að ræða laugardagsmorguns-hugleiðingu áður en formlegur undirbúningur fyrir hörkuleik gegn Eyjamönnum á mánudag hefst, og ef til vill ekki síður áminning til þeirra sem sækja völlinn um það að þeir geta svo sannarlega verið okkar tólfti maður, með því að taka virkan þátt í leiknum.
Og af lestri þessarar hugleiðingar má sjá, að það gæti jafnvel verið gott fyrir heilsu þína líka.
Þennan pistil byrjaði ég á tilvitnun í lag og því er við hæfi að enda hann líka á einni slíkri, en þar er um að ræða lag skoskrar sveitar sem ber nafnið Travis.
"Sing,sing,sing.....
for the love you bring, won´t mean a thing,
unless you sing...sing sing sing."
Skemmtilegt myndband þessa ágæta lags má finna hér
Góðar stundir.
Húni.
Flokkur: Íþróttir | 30.6.2007 | 12:05 (breytt kl. 12:10) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
350 dagar til jóla
Spurt er
Af mbl.is
Tenglar
Annað
EAS
Aðeins síðri Grindavíkursíður
Aðrar síður sem innihalda íþróttir og bæjarmál í Grindavík
Heimasíður knattspyrnuliða hérlendis
Tenglar á síður heimasíður hjá knattspyrnuliðum á Íslandi
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Athugasemdir
þetta er örugglega flott grein efast um ad einhver nenni ad lesa þetta allt, allavega ekki eg eysteinn tu verður bara ad segja mer a næstu æfingu hvad stendur her
andri (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 14:02
Það mætti halda að Eysteinn hafi rannsakað afleiðingar þess að syngja og heyra söng frá því að hann fékk hár á punginn. En allavega vitsmunalega orðað og mikið til í þessu.
Bogi Rafn (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 20:00
Vel mælt frændi. Ég hef margoft spáð í þessu og velt þessu fyrir mér. Þetta er eins í körfunni. Þegar Grindavík spilaði við Skallagrím í Borganesi þá fór hópur af strákum með og virkilega sungu og studdu strákana áfram í keppninni. Þetta hefur mikið að segja og fyrir mér voru stuðningsmenn KR stuðningsmenn ársins í fyrra þegar þeir létu ekkert á sig fá að vera að tapa 5-0 og slátruðu stúkunni.
sjö-an (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 23:02
Helv. góð grein.. nennti reyndar ekki að sannreyna heimildir en þetta hljómar vel. Ég held að fleiri félög eigi við þennan vanda að etja en félög í úrvalsdeildinni eru að braggast svo vonandi verður þetta orðin hefð áður en langt um líður. Menn flykkjast jú til Englands um veturinn til að drekka í sig stemminguna sem hæglega væri hægt að hafa hér. Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt. Megaslagið heitir "svo skal böl bæta"
Bibbi
Bibbi (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 17:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.