KA-Grindavík umfjöllun

 Hér er að finna umfjöllun af leiknum í gær. Tekið af síðu KA manna

Fyrri hálfleikur:
Leikurinn byrjaði með miklum látum, Grindvíkingar áttu gott færi strax á fyrstu mínútu, þegar bakvörður þeirra lagði boltann út í skot, en það hitti ekki á markið. KA menn svöruðu að bragði, Svenni átti góða fyrirgjöf á Ibra, en skalli hans var vel varinn. Stuttu síðar áttu Grindvíkingar skot að marki, boltinn fór í höndina á Hjörvari en ekkert dæmt, og Grindvíkingar ósáttir með það.

Leikurinn var mjög hraður, og komust KA menn í ákjósanlega stöðu í næstu sókn en síðasta sendingin hitti ekki á mann. Mjög jafnt var á með liðunum í upphafi, en á 21. mínútu komust KA menn yfir. Almarr vann skallabolta á miðjunni, skallaði á Elmar sem sendi góða stungusendingu á Svein Elías. Hann skaut með fyrstu snertingu og kom KA mönnum yfir (1-0). Grindvíkingar sóttu mikið upp kantana en Sandor var eins og kóngur í ríki sínu í öllum fyrirgjöfum.

Grindvíkingar voru ekki lengi að svara, og á 27. mínútu komust þeir þrír gegn tveimur varnarmönnum. Orri Freyr lék á einn varnarmann KA og skoraði, en Sandor hafði hendur á boltanum og munaði engu að hann næði að verja (1-1).

Grindvíkingar komust aftur í skyndisókn eftir horn suttu síðar, en þá gerðu
varnarmenn KA vel, og lauk sókninni með slöku skoti yfir markið. Í lok fyrri hálfleiks átti Ibra góða sendingu á Svenna, en það munaði hársbreidd að hann næði að skalla boltann á markið. Grindvíkingar fengu gott skallafæri í síðustu sókn fyrri hálfleiks, en Sandor greip boltann auðveldlega eins og svo oft í leiknum en hann átti frábæran leik í markinu.

Seinni hálfleikur:
KA menn áttu fyrsta færi seinni hálfleiks. Á 50 mínútu þvældi Ibra varnarmann Grindvíkinga og var kominn í ágætt skotfæri, en annar varnarmaður Grindvíkinga komst fyrir skotið,
boltinn hrökk til Sveins, en skot hans var einnig varið í horn. Eftir hornið skaut Almarr fyrir utan teig, boltinn fór af varnarmanni og fyrir markið. Þá var hangið aftan í Ibra og réttilega dæmt víti. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega með góðu skoti í vinstri samskeytin (2-1).

Grindvíkingarnir létu þetta ekki á sig fá, og mínútu síðar komust þeir í dauðafæri eftir fyrirgjöf vinstra megin, en skotið fór í innanverða stöngina og útaf. Liðin sóttu bæði af krafti
næstu mínúturnar án þess þó að ógna markinu neitt sérstaklega.

Á 75. mínútu dró til tíðinda. Sveinn Elías vann boltann af aftasta varnarmanni Grindvíkinga, og komst framhjá markmanni þeirra, þegar hann kippti undan honum löppunum. Marínó, dómara leiksins, þótti hins vegar ekkert athugavert við þetta og dæmdi hornspyrnu. Sveinn hefur líklega
látið einhver misfögur orð falla, því eftir spjall við línuvörð leiksins dró hann upp rauða spjaldið og rak Svein í bað.

Grindvíkingar sóttu af krafti, en náðu þó ekki almennilegu skoti á markið. Arnór Egill, sem var nýkominn inná, átti ágætt skot á 85. mínútu en það hitti ekki á markið. Það var komið fram yfir venjulegan leiktíma þegar Grindvíkingar fengu aukaspyrnu út á vinstri kanti. Scott Ramsey tók spyrnuna, Grindvíkingar fengu frían skalla á markið, óverjandi fyrir Steinþór sem var nýkominn í markið fyrir Sandor. KA-mennirnir í teignum vildu meina að Þorvaldur Sveinn hafi verið tosaður niður en ekkert var dæmt og markið stóð (2-2).

Niðurstaðan því afar svekkjandi 2-2 jafntefli en fyrsta stigið í hús. Næsti leikur er gegn Víkingum næstkomandi laugardag.

Óli Stebbi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki leikur hjá ykkur gegn Val á fimmtudag?

hgrghs (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband